Orðhvatir sláturhússmenn 31.1.18

Mikil atvinna var á árum áður í Neskaupstað. Í sláturtíðinni var því smalað öllum sem hægt var að fá úr sveitinni svo sláturhúsið gæti gengið. Faðir minn hafði það hlutverk að aðskilja innvolsið á til þess gerðu borði og á þeim árum þurfti að rekja upp allar garnir fjárins í dalla og voru þær síðan af öðrum manni settar í tunnu með vatni og rakinn úr þeim gorinn og þær gerðar síðan hver og ein upp í hönk og öðrum endanum vafið utanum og saltaðar síðan. Þær voru síðar notaðar utanum pylsur í pylsugerð.

Þetta hlutverk að aðskilja innvolsið þótti ekki henta nema handfljótusu mönnum og entust ekki aðrir í því eða höfðu undan þeim mikla hamagangi sem var í verkakeðjunni. Man ég að faðir minn gekk með kúft

handabökin af bólgum og bar á sig brennsluspritt á kvöldin, fyrsta haustið sem hann var í þessu en að gefast upp var ekki á hans lista.

Þeir þóttu harðvítugustu mennirnir og sumir voru beljakar, sem entust í fláningunni og höfðu tvöfalt kaup á alla tíma í stað þess að vera í akkorði við þetta eins og víðast gerðist. Eitt sinn komu hér um nokkurn tíma fláningsmenn frá sláturhúsinu á Egilsstöðum sem var löggilt með vönduðum vinnubrögðum fyrir sölu á utanlandsmarkað. Þeir þóttu vanda sig meira en hér hafði sést áður og gat faðir minn ekki setið á sér að tala til þeirra á þessa leið: ,,Blessaðir verið ekki að vanda ykkur á þessu, hér gildir einu hvort gæran fylgi kjötinu eða kjötið fylgi gærunni, það er bara að rífa þetta, stíta þetta og tæta og láta það ganga “! ,, Eru það nú orður sem hann gefur okkur“, sagði mesti beljakinn af öllum í fláningunni, sem var bóndi úr sveitinni. Ekki man ég hvort þær umræður yrðu lengri, enda innleggið harla nógu gott.

Til að hagræða og flýta fyrir í fláningunni var fenginn hörkumaður úr Mjóafirði, hann var frekar grannur og í meðallagi á hæð myndi ég segja og ákaflega kjaftfor og kjarkaður og fylginn sér á hverja lund og ekki spillti fyrir að hann kvað fast að orðum og skrollaði all hroðalega mikið. Hann lét menn hafa það sem honum fannst þeir eiga og hinir heilögu fyrir slíku að töldu sig vera voru hinir háttsettu fláningsmenn.

Það gekk þó lengst og kætti mjög alla aðra en þá félaga að mesti beljakinn gekk til hans ber að ofan og ógnandi og spurði hvort hann ætti að taka niðrum hann og rassskella hann. Strákurinn lági og mjói kvikaði hvergi undan, rak á móti honum rýtinginn sem hann hafði í starfi sínu og svaraði frumhlaupinu fullum hálsi: ,,Komdu bara ef þú þorir, ég skal sko spretta á helvítis mörbelginn á þér“! En þá guggnaði ofurmennið og sögustúfnum er þar með lokið. Einar Sigfússon.


Djásn frá Aðalbóli 31.1.18

Hún er ekki mögur

að kostum það mun sjást,

blessunarlega hendur mínar

á hryssu þessa bentu.

Hún er svo fögur

að hún nefnist Djásn

og heiti þetta mun hún bera

með ljóma bæði og rentu.


Yndisauki 31.1.18

Ýmislegt með erfiðleikum fæðist,
óðar en varir þroskast það og glæðist.
Fólk skoðar eitt og annað
og ef það ekki er bannað
áhugasamur til yndisauka læðist.

Vistaskipti 30.1.18

Eina hryssu að taka

er tilfinning ekki góð,

tvær að hafa saman

er ég því nokkuð brýndur.

Það mun erfitt vera að

koma í ókunnugt stóð

öllum fyrri vinum

og nánu umhverfi týndur.

 

Lífið er allt

meira og minna vani,

maður jafnt sem skepna

líkist þar.

Heimþrá flestra

hangir á sama plani

hversu bölvað

sem uppeldið þar var.


Af speki föður míns 27.1.18

Oft er í lífinu ýmsum að hert

og árekstrarnir tíðir með sönnum.

Það er það minnsta sem allir geta gert

að þvælast ekki fyrir vinnandi mönnum.


Í lengd og bráð 26.1.18

Misjöfn reynist mannadáð

og margt í þokunni býr.

Líf vort er í lengd og bráð

lífsins elexsír.


Ríkisstjórn VG 25.1.18

Það er alltaf verið

Mammoni að færa fórn

og færa auðinn til þeirra

sem mikið hafa af launum.

Það er eins og Sjálfstæðisflokkurinn

sé einn í stjórn,

sagði gamli maðurinn

er baslaði í skuldaraunum.


Spunamaðurinn 24.1.18

Karlinn sagði,

ég spinn og ég spinn,

spuna ég kann ávallt bestum

en yl nú bæði og yndi ég finn

af ókomnum gestum.


Upp á líf og dauða 24.1.18

Sálin fer víst fyrir bý

þótt fá vilji skrokki í híma.

Það kemur alltaf að því

einhverntíma.

 

Láttu þér því líða vel

svo lengi sem þú getur best,

þú gætir fengið að gista hel

og gefið verði ei langan frest.


Folinn 24.1.18

Geislar af honum gleðin skær,

glitrar augnaljóminn.

Haldast þar í hendur tvær

höfðingsskapur og sóminn.


Næsta síða »

Um bloggið

neisti

Höfundur

Einar Sigfússon
Einar Sigfússon
Ég Einar Sigfússon er Óðalsbóndi í Efri-Skálateigi 2, í Neskaupstað. Hættur hefðbundnum búskap fyrir löngu vegna heilsubrests og er öryrki. Ég er enn með nokkur hross á jörðinni og örlitla ræktun í félagi við annan uppgjafabónda sem er Ásvaldur Sigurðsson framkvæmdastjóri í Neskaupstað. Hann bjó fyrst á Hömrum við Akureyri og síðar á Geithellum í Álftafirði. Hann rekur nú verslun í Neskaupstað og er eigandi og hennar.
Jan. 2018
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31      

Nýjustu myndir

  • 10959352 10152864324913964 3615740646773882780 n
  • 10959352 10152864324913964 3615740646773882780 n
  • Kjarnveig 5 vetra
  • Blíða 3ja vetra
  • Blíða veturgömul

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.4.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku:
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku:
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband