10.3.2013 | 19:53
Á ég að sýna þér það á þér strássi, skrifað 10.3.2013
Ég gerði þetta söguuppkast í dag um viðskipti f.v. sveitunga minna sem voru mér mikð eldri og eru látnir:
Kalli frændi minn bjó á næsta bæ fyrir utan mig í Efri-Skálateigi 1. Hann hélt vel utan um sitt, átti margt góðra hluta og gekk fast eftir því að sér væri skilað því sem nágrannarnir sóttu til hans og það áður en þeir fengu fleira að láni. Heyrði ég honum bölvað hroðalega fyrir þessa ósvífni sína af þeim sem engu skiluðu en vildu bara endalaust fá lánað meira og meira. Sögðu þeir sem hlut áttu þar að máli að hann körónaði svo skömm sína með því að segja blákalt upp í opið geðið á þeim að þeir skiluðu aldrei neinu. Þetta efni hef ég tekið saman í eina setningu sem er svona: - Fáum geðjast að sannleikanum,þegar hann hentar þeim ekki. Þetta kemur nú reyndar lítið við sögunni sem ég ætla að segja.
Júlíus Þórðarson á Skorrastað sagði mér frá fyrstu kynnum sínum við Kalla frænda minn og voru þau honum mjög minnisstæð. Hann var þá nýlega kominn í fjörðinn og Guðjón tengdafaðir hans sendi hann til að fá lánað mikið þarfaþing hjá Kalla sem var nasatöng í nautgripi. Það átti að fara að lóga stóru nauti á Skorrastað muni ég rétt. Þessi töng var þannig úbúin að það var sundurtekinn hringur með hnúða á hvorum enda öðru megin. Þetta var sett í nasir nautanna en í hinn endann var hann með tveim álmum með hjöru þannig að hægt var að opna klemmuna en þar fyrir ofan var teinn sem hægt var að þrýsta gorminum uppá sem var annars utan um álmurnar og hélt klemmunni saman í nösum nautanna. Svo var að auki hringur í endanum á teininun fyrir spotta til að teyma nautið með.
Kalli frændi minn varð fljótt og vel við þessarri beiðni og sótti klemmuna og kom með hana út í dyrnar en Júlíus hafði beðið á hlaðinu. Klemman var mjög sjaldgæft apparat og hef ég ekki séð annað slíkt svo ég muni og Júlíus starði á undrið og spurði hvernig ætti eiginlega að nota þetta verkfæri. Kalli frændi minn leysti úr þeirri spurningu á sinn einstaklega einlæga og hugljúfa hátt og dró þegar upp gorminn og glennti út klemmuna, stökk svo út úr dyrunum og óð með klemmuna upp að nösunum á Júlíusi um leið og hann mælti: ,,Á ég að sýna þér það á þér strássi! Júlíusi varð mikið um og hröklaðist undan klemmunni aftur á bak og spurði ekki meir en lét fætur forða sér hið fyrsta frá kynnum sínum við þennan nýja nágranna sinn.
Um bloggið
neisti
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.9.): 0
- Sl. sólarhring:
- Sl. viku: 2
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 2
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.