Að vera fullkominn 4.5.13

Þetta ljóð varð mér á munni út af spilamennsku gærkvöldsins:

Sumir eru svo fullkomnir
að þeir tilsögn ekki taka
og tíðust eru viðbrögð þeirra
illskuköst án raka.


Aðför dauðans 4.5.13

Ríkisstjórnin gerir það ekki endasleppt við öryrkja sem hafa ekki málungi matar og þurfa  flestir mikið af lyfjum til að halda lífi sínu:

 

Lengi getur flókið flækst,

fíflin dauða kasta völu.

Kratadýrin leggjast lægst,

lyfin dýr að gera í sölu.


Vantrúaður frændi 30.4.13

Ég hef verið baðaður sem barn síðustu árin á elliheimili bæjarins og dekrað við mig þar af yndislegum starfsstúlkum sjúkrahússins.  Þessi þjónusta er kostuð af ríkinu en sveitarfélagið hefur svikist undan flestum skyldum sínum við mig hvernig sem ég hef sótt á fulltrúa þess með að gera það.  Fyrir þremur árum orti ég þessum ágætu konum fallegt ljóð sem þær settu í plast og hengdu upp á gangi almenningsins. 

 

Ellismellirnir sátu síðan saman  og ræddu ljóðið og létu vel af. - Í þeim hópi átti ég móðurbróður, uppeldis- og fóstbróður sem alltaf hefur haldið sömu tryggð sinni við mig, blessaður.   Hann mælti:  ,,Þetta er allt saman stolið”.  ,,Hvernig ætti það að geta verið? ” Mælti þá annar.  ,,Það er öllu hægt að stela á netinu”, svaraði frændi minn.

 

Kveðja í baðhúsið 2010

Kvennaval ég kærast lít

kunna að skrúbba og bóna. 

Af mér taka allan skít

svo ei ég líkist róna.

 

Frá þeim ætíð flottur fer

félagsskapinn trega. 

Þakkir ykkur bestar ber

og blessun ævinlega.

 

Enn þó leikur laus við sóta

líkar ýmsum verr það mál. 

Vinur að mér var að skjóta,

vaskað gætuð mína sál?

 

Imprað hef á ýmsu hér

ekki meira segi. 

Kveðjur ykkur bestar ber

bóndinn í Skálateigi.


Afmæliskveðja 28.4.13

Megi yndið unna þér

að þér gleðin fari.

Ef þig rekur upp á sker

eigirðu fley til spari.


Afmæliskveðja 29.4.13

Ellin bráðast að oss fer,

athuga það í tíma ber.

Megi ástin auðnast þér

og yndið fá að sleppa sér.


Hvað er framundan? 29.4.13

Þegar rann upp mánudagsmorgun eftir kosningarhelgina var baðdagur hjá mér í Breiðabliki.  Eftir baðið settist ég niður frammi á almenningnum og var ég trakteraður á kaffi að vana.  Tók ég þá upp blað mitt og penna og litlu síðar mælti ég til þeirra sem þar voru að ég væri búinn að yrkja tvær vísur og las yfir eftirfarandi ljóð fyrir mannskapinn.  Þá var það sem jafnaldri minn og fyrrum bóndi Árni frá Kirkjubóli í Norðfirði sem þarna býr skaut inn þessarri snilldarlegu athugasemd: ,,Hvaða sjampó notaðir þú?”

 

Útlitið núna gæti verið verra,

vorum að losna við illilega perra

og þótt bjartir dagar blasi ei við,

- á árum komandi,

bætir Sigmundur ástandið,

- vonandi!

 

Allir þurfa einhversstaðar vera,

eiga hvílu og þrautir bera.

Að Guð sé stundum tepptur

og góður af illu krepptur,

ekki virðist gott við því að gera.


Sigmundur brosir 28.4.13

Sigmundur atkvæða sótti kynstri,

samspillingarstjórn hann rifti.

Brosir til hægri, brosir til vinstri,

- bíða menn að höndum lyfti.


Eftirmæli ríkisstjórnar 28.4.13

Skjaldborg um bankana skók vora þjóð,

með skelfingum fólkið borið var út.

Minning um vinstri stjórn mæta er góð

en mörgum færði hún kosningasút.


Kosningaúrslitin sláandi sorgardagur lítilsmagnans 28.4.13

Þessari þjóð er ekki viðbjargandi, það er bara þannig.  Þessi þjóð er eins og lúbarinn kona sem snýr alltaf aftur heim til ofbeldismannsins. 

 

Um þjóðfélagið 2012

Að rétta af þjóðlífið sækist mjög seint

af syndum hér fátt eitt talið.

Harðvítugt glæpalið ljóslega og leynt

hefur logið og stolið og falið.

 

Almúginn segir, ei þingmönnum þakkið
þeir hafa ekki unnið mér eða þér.
Þar hefur stöðugt allt helvítið pakkið
verið að hlaða undir rassana á sér. 

 

Aumingjar hafa á ýmsum stöðum setu

og ei gott að vita hver reynist skást.

Þegar menn hafa ekki þroska eða getu

þýðir víst lítið um það að fást.

 

Ei leyfist öryrkja að seðja sinn svang
af sóðum er jafnóðum rúinn
og heimskan verður að hafa sinn gang
hún er af mönnum til búin.

 

Marga vantar mat að borða
mega þola skort og pín.
Lengi man til ,,Íhalds” orða:
,,Þeir ættu bara að skammast sín”!

 

Það er bágt í þurrum hópi

þjást og finna til.

Ætti ég bara ögn af dópi

og algleymi um stundarbil!


Komment til vinar á annarri línu... 27.4.13

Það hefur allavega verið sorfið djöfullega að mér þetta kjörtímabil og ég held að flestum sem betur mega sín finnist það í lagi og hugsi bara um sjálfa sig. Ég vil breytingar á þessarri niðurlægingu stórs hluta þjóðarinnar en geri mér ekki miklar vonir um bættan hag hvað sem ég kýs. Kosningarkerfi valdhafanna gerir það illmögulegt og ég tel ekki hægt að bjarga þjóðinni frá forheimskan sinni varðandi það að hjakka í sama farinu hvernig sem farið er með það. Fyrstu verk Árna Páls á ráðherrastóli voru að skerða laun lífeyrirþega sem höfðu fyrir vart til hnífs og skeiðar og hafa mátt standa síðan á strætum kaldir og hraktir að betla sér mat til að reyna að draga fram lífið. Ég hef oft hugleitt hvort það heyri undir hreina mannvonsku að styðja slík stórnvöld eða hvort það geti verið eingöngu af heimsku og skilningsleysi...

 

Þjóð í öngum sínum 18.12.12

Bágt er hér ástand í borgum og dölum,

búið á sálunum fólk löngu er.

Menn eigra á klósett í Alþingissölum

og erindindið er til að farga sér.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

neisti

Höfundur

Einar Sigfússon
Einar Sigfússon
Ég Einar Sigfússon er Óðalsbóndi í Efri-Skálateigi 2, í Neskaupstað. Hættur hefðbundnum búskap fyrir löngu vegna heilsubrests og er öryrki. Ég er enn með nokkur hross á jörðinni og örlitla ræktun í félagi við annan uppgjafabónda sem er Ásvaldur Sigurðsson framkvæmdastjóri í Neskaupstað. Hann bjó fyrst á Hömrum við Akureyri og síðar á Geithellum í Álftafirði. Hann rekur nú verslun í Neskaupstað og er eigandi og hennar.
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • 10959352 10152864324913964 3615740646773882780 n
  • 10959352 10152864324913964 3615740646773882780 n
  • Kjarnveig 5 vetra
  • Blíða 3ja vetra
  • Blíða veturgömul

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband