My Ange darling 16.6.17

My Ange darling 16.6.17

Gleðirík og góð hún er,

gott á með að læra

en lætur lítið yfir sér

ljúfa stúlkan kæra.

 

Skáldin yrkja orðaglamur,

andann til að næra.

Ég er harla hamingjusamur

að hitta á þig kæra.

 

Í mínu lífi að láni ég bý

er leikur göngustefið.

Það er ansi misjafnt af því

sem öllum virðist gefið.

 


Á hleri 13.6.17

Sjaldan heyrir sá lofið eitt,

sem á hleri stendur.

Þar hefur margur hár sitt reitt

og hold í klórað rendur.

 

Tíminn og tilveran 13.6.17

Tíminn áfram æðir,

algjörlega á fart,

yfir holt og hæðir

svo hugurinn fylgir vart.

Framtíð vor er í fólgin

fá bara líða með

og forðast hvern bófann bólginn

er blæs oss um koll sem peð.

Því eru flestir á flótta

og friðsældin sjaldan tær,

- allir lifa í ótta,

andskotinn sé þeim nær.


Allt heila lífið 11.6.17

Menn eru allt heila lífið í læri

að laga sig til og slípa

og Guð veitir okkur tækifæri

sem okkar er málið að grípa.

 

En getirðu ei fengið gripið hót

og glutrir því hverju tækifæri

verðuru eins og hvert annað dót

í umhverfinu vinur minn kæri.

 

Vandamál 11.6.17

Veistu ekki vinur minn kæri

að vandamál ná oft út fyrir hlað

og setja sig ekki úr tækifæri,

- illgresi er planta á röngum stað.


Á góðri stund 10.6.17

Indælt er að eiga saman

unaðsstund á berjamó!

Mörg er konan mannsins gaman

og mæðist ekki fái hún nóg!


Memory

Teyja sig loppur 10.6.13
Alþingismenn endurgreiddu sér og öðrum hálaunamönnum allar skerðingar þeirra aftur í tímann en ætla ekki að gera það sama fyrir snauða. Félags- og jafnréttismálaráðherrann talaði svo fjálgslega á Byljunni í morgun um stefnu þeirra um sem mest jafnrétti þegnanna.

Er þetta ekki dæmigert afbrygði af sögu Orwells er dýrin byltu harðstjórn mannsins og svínin komust til valda? Þeirra boðorð var á sama hátt að allir skyldu jafnir en sumir bara jafnari en aðrir. Því hefur verið spáð að það logi hér uppúr svínríinu með blóðugum mótmælum:

Teygja sig loppur í tímarás,
taumlaus er græðgi og pot.
Tíðum er einum gefin glás
en gerðir svo margir þrot.


Flestir reyna að krafsa yfir saur sinn 4.6.17

Sigríður Andersem dómsmálaráðherra var í umræðuþætti á Bylgjunni í morgun og varði af bestu getu ráðslag sitt og ríkisstjórnarinnar í Landsdómaramálinu.

Hún vitnaði í mikla ábyrgð ráðherra en taldi nefndina sem valdi dómarana ábyrgðarlausa. Síðan hvenar ætli að sú ábyrgð muni vera komin? t.d.

Verði hún og ríkisstjórnin dæmd, skyldi liðið fá að borga sekt eins og alþýðan myndi fá að gera og refsingar með að dúsa í fangelsi?

Skyldi liðið sem ver hvert annað í flokkunum látið víkja frá störfum og af hverjum er mér spurn? Nei það er ekki nokkur hætta á því nema að fjölmiðlar píni það með upplýsingaflæði og fólkið með mótmælum til að segja af sér:

Fantar þjóðlífs 4.6.17

Svívirðan oft sýnist ljósleg vera,

syndararnir reyna af sér bera.

Mikil væri bót

er mál gerast ljót

að mega fanta þjóðlífs fá að skera.


Svívirða og svínarí er sjaldan langt undan í pólitík 4.6.17

Í morgunspjalli laugardagsins í gær á Bylgjunni var tekist á um störf Sigríðar Andersen dómsmálaráðherra og ríkisstjórnarinnar allrar á þingi við að pútta út vinstri mönnum fyrir aðra þeim þóknanlegri en dómaraliðið hafði verið valið af þar til gerði nefnd til sæta sinna í Landsdómi sem er fyrirkomulag nýtt af nálinni hér á landi en áður sáu Alþingismenn bara sjálfir um að dæma hvern annan en ekki hefur verið gripið til þess úrræðis nema einu sinni í lýðveldissögunni en það var eftir hrunið svokallaða. Þá voru allir dæmdir alsaklausir og ábyrgðarlausir með öllu nema forsætisráðherrann Geir Haarde og þótti mörgum það harðneskjulegt og mjög mikil rangsleitni örlaganna.

Tildrög umdæðunnar eiga rætur að rekja til þess að einn umsækjandanna sem látinn var víkja ætlar að sækja ráðherrann og ríkisvaldið til saka fyrir dómstólum og er hann sérfróður um slík málefni og lagði sín rök fyrir hlustendur um misferli valdsins á mjög sannfærandi hátt. Mér varð bara að orði: Ekki hafa sjálfstæðismenn lagast mikið við hrunið hvað svíðingsháttinn og svínaríð varðar, hvað sem segja má um aðra: 

Valdið 3.6.17

Lífsins gatan er lúmsk og hál

til launráða hvað sem þið haldið.

Sjaldan er gróði né gamanmál

þegar gengið er í slag við valdið.


Yndisauki 2.6.17

Til yndisauka ýmis reynist smuga

en aðstæðurnar duttlungunum háðar.

Af hverju láta aðra systurina duga

ef þú getur komist yfir báðar?

 

Mannréttindi 2.6.17

Þingmennirnir þjóðrembuna spranga,

þeir eru flestir auðvaldsins í bandi.

Mannréttindi ná aðeins fram að ganga

í gegnum dómstóla hér á landi.


Öfgar 31.5.17

Okkur hættir alltaf við

í öfgarnar að fara

og allir vilja spreytast til

að koma sér í feitt.

- Það getur verið erfitt

að gera ekkert bara

en glepstu aldrei vinur minn

rangyndum fá beitt.


Óheilindi og ábyrgðarleysi 30.5.17

Einn kemur þá annar fer

og agtar þjóð sem fjandi.

Enginn maður ábyrgð ber

í embætti á þessu landi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

neisti

Höfundur

Einar Sigfússon
Einar Sigfússon
Ég Einar Sigfússon er Óðalsbóndi í Efri-Skálateigi 2, í Neskaupstað. Hættur hefðbundnum búskap fyrir löngu vegna heilsubrests og er öryrki. Ég er enn með nokkur hross á jörðinni og örlitla ræktun í félagi við annan uppgjafabónda sem er Ásvaldur Sigurðsson framkvæmdastjóri í Neskaupstað. Hann bjó fyrst á Hömrum við Akureyri og síðar á Geithellum í Álftafirði. Hann rekur nú verslun í Neskaupstað og er eigandi og hennar.
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • 10959352 10152864324913964 3615740646773882780 n
  • 10959352 10152864324913964 3615740646773882780 n
  • Kjarnveig 5 vetra
  • Blíða 3ja vetra
  • Blíða veturgömul

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.9.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband