Fals og svik og fögur fyrirheit

Vinstri menn hafa ætíð haft fögur sjónarmið og stefnuskrár til að bera á borð fyrir kosningar en hvenær sem þeir hafa komist til stjórnarstarfa hafa framkvæmdir þeirra þar um verið litlar eða engar og yfirleitt á þveröfugan veg og þarf vart að vitna um það lengra en það sem ætti enn að vera í fersku minni um háttarlag Vinstri stjórnarinnar okkar sálugu.  

Mér þykja brosleg núna þau fögru fyrirheit sem Sóley Tómasdóotir V- græn ber nú á borð kjósenda fyrir borgarkosningarnar en aftur á móti alltaf sorglegt þegar hrekklaust fólk í bágri lífsstöðu lætur hina sömu ómerkilegustu fanta, hverjir sem eru hverju sinni blekkja sig aftur og aftur til stuðnings sem koma svo jafnt sem áður aftur og aftur í bakið á þeim oftast með hinu svívirðilegasta háttarlagi.

 Alþingismaður 24.4.14

Í holdið sjúkra oft sækir fleinn

og sár þeim gerir meinin.

Alþingismaður er sjaldan seinn

að sjúga aumum beinin.

Þeir njóta að drepa einn og einn

og ætla að bæti skeinin. 


Sannleikurinn 22.4.14

Einn hefur þennan,

annar hefur hinn,

hann er svo margvíslegur

sannleikurinn!

Sumir telja hann svartan,

aðrir segja hann hvítan,

þannig fer hann eftir því

hvernig að menn lít´ann.


Seint mun framsókn batna siðleysið

Nú sniðganga framsóknarmenn lög og reglur að sagt er af í fjölmiðlum og skora á Guðna Ágústson f.v. ráðherra þeirra að taka við forustu fyrir flokkinn í höfuðborgarmálunum.  Ég segi fyrir flokkinn því varla myndi hann gera það fyrir fólkið nú frekar en á Alþingi forðum er hann lét margdæma sig með formanni sínum Halldóri Ásgrímssyni fyrir siðleysi og mannréttindabrot á Öryrkjum, lægra er nú varla hægt að leggjast. Ég tel enga furðu að illa gangi í þjóðlífinu við að fyrirbyggja fátækt og eymd þegar sífellt er sótt í af ráðamönnum að uppdubba hin mestu níð- og hrakmenni aftur og aftur sem fyrirfinnast til að gera að sýndarfulltrúum fólksins.

Krimmahundar 22.4.14

Krimma- hunda- kjarkurinn

kemur seint í frí.

- Það er margur maðkurinn

mysunni í.  


Í hópi góðra vina á afmæli mínu á skírdag 17. apríl

Afmælispartíið mitt lukkaðist stórkostlega að vana.  Mikið var drukkið og sungið undir gítar- og píanóspili og brandar og skemmtisögur sagðar og afmælisbarninu kveðin og lesin og sungin dýrustu ljóð þess á milli auk margra góðra gjafa.  Með einni þeirra fylgdi kort með einstaklega falllegum texsta og miklu hrósi í minn garð og varð það til þess að ég orti þetta:

Það sem auga hvert sér 20.4.14

Það halda mig margir betri en ég er

en enn fleiri trúlega verri.

Maðurinn er það sem auga hvert sér

og uppfærist í sálu hverri.


Seint koma öll kurl til grafar, skrifað 16. apríl14, í tilefni af ammæli mínu á morgun

Hann var alltaf kallaður Páll í Hrauni og var Magnússon og bjó við efstu götu byggðarinnar  í Neskaupstað.  Hann var orðin vel við aldur á þeim árum sem ég man eftir honum frá unga aldri er ég komst á legg og hann var að koma til okkar erinda sinna.  Það mun hafa veið svona upp úr 1944 eða þar um bil.  Ég man sérstaklega vel eftir því orðatiltæki hans að segja tíðum: - Já, akkúrat, akkúrat, akkúrat. 

Hann var með dálítinn búskap og seldi mjólk sem fólkið í næsta nágrenni við hann sótti til hans í litlum brúsum um það leiti er ég var í sundkennslu í bænum og hélt til í húsi við sömu götu rétt hjá honum hjá Stefáni Þorleifssyni og Guðrúnu Sigurjónsdóttur og kom þá oft til hans í heimsóknir.  Hann hafði keypt kýr af föður mínum og dáðist mikið að því hvað þær væru góðar.  Hann var sjálfmenntaður eins og flestir almúgamenn á þeim árum sem kunnu eitthvað á annað borð og snjall dýralæknir sem var af öllum hér oftast kallaður til þegar mikið lá við.  Hann brá ævinlega fljótt við köllum og ferðaðist aðallega um á hesti  og tók alltaf lítið eða ekkert fyrir það enda var auraleysi fólksins yfirleitt algert á þeim árum.

Það var einmitt út af kúasölu föður míns til hans sem mér datt í hug að skrifa þessa sögu.  Ég hef dálítið gaman af að segja frá ævintýrum mínum og óknyttum á ungdómsárunum og hef lesið í einn klukkutíma af þeim inn á spólu fyrir afadrengina mína syni Margrétar Þóru.  Frá þeim hefur svo móðirin fengið áleitnar spurningar á borð við þessar: - Heldurðu að hann sé meiri prakkari en afi okkar var og heldurðu að það sé satt að afi hafi gert þetta?  Spurði Hreiðar Logi út af sögunni þegar ég meig yfir höfuðin á systur minni og vinkonu hennar er kom í heimsókn til okkar og þær vildu ekki leyfa mér að leika með sér.

Við vorum nú bara lítil skott við Ingibjörg systir mín þegar við fengum að ganga og reka á eftir fyrri kúnni til Páls í Hrauni alla leiðina út í bæ en það eru um 5 kílómetrar.  Faðir okkar teymdi kúna á hesti en ekki man ég hvernig við komumst heim aftur en finnst mig rána í að það hafa verið fyrir aftan föður okkar og framan á hestinum.  Mig minnir Páll hafa sótt seinni kúna á hesti og teymt hana út eftir sjálfur.  Við hefðum varla viljað reka á eftir henni nema þá í fjarska því henni var verr við okkur en hundana sjálfa á heimilinu.

Þar kemur að ástæðunni fyrir því að hún var seld.  Hún var ákaflega taugaveikluð og vandmeðfarin.  Hún hét Spöng og þótti mjög góð mjólkurkýr, komst í 24 merkur í mál eftir burð og hélt þeirri sömu nyt ákaflega vel og lengi.  Hún var rauðskjöldótt mjög falleg og höfð á syðsta básnum að vestanverðu í tvísettu básafjósi okkar þar sem gengið var um gang við hliðina á henni.  Ég hef oft hugsað um það hvort það hafi ekki verið vanhugsað ráð af föður mínum að hafa hana ekki frekar í miðju fjósi þar sem hún hefði haft styrk af öðrum kúm á báðar hliðar en það hefur trúlega verið svo til að geta mismunað henni við hinar kýrnar í fóðrun þeirra.  Hún var svo vanætin og heyvönd að faðir minn varð alltaf að velja hey í hana sérstaklega í sér poka en hann setti allt hey í poka og viktaði nákvæmlega í hverja kú.  Það mátti helst ekki horfa á hana éta og besta ráðið þótti oft til að fá hana til að taka tuggu að hafa heypokann þannig að hún gæti teygt sig í hann og stolið úr honum.

Við krakkarnir komumst að því að henni var mjög illa við kettina sem voru nokkrir í fjósinu.  Ég held að við Örn ári yngri en ég og var í sveit hjá okkur höfum ekki haft systur mína með í þeim ljóta leik því hún hefði geta mótmælt og klagað er við hrekktum Spöng með köttunum.  Kýrnar voru hafðar inni á næturnar og tíðum á miklum rigningardögum sem var óvenju mikið um á þessum árum.  Þá komu góð tækifæri til að leika við Spöng sem ég held að oft hafi orðið eitthvað meira en lítið.  Þá tókum við kettina til skiptis og stóðum með þá við hlið hennar skjálfandi af hræðslu, hinumegin við skilrúmið og hentum þeim síðan á hrygginn á henni og það var ekkert gaman að henda á aðrar kýr en hana.  Aumingja skepnan trylltist þá algjörlega og lék stríðdans á básnum og bölvaði ógurlega hástöfum og bókstaflega öskraði undan okkur.  Þá veltumst við um af hlátri og skemmtum okkur sem aldrei fyrr.

Við urðum svo á kvöldmjaltatímum ef við komum í fjósið að passa okkur á að ganga um tröðina vel fjærri hanni því flórarnir voru mjóir og hún fylgdist vel með okkur og oft komu fætur hennar vaðandi langt aftur á tröð ef hún hélt sig geta náð til okkar.  Systur minni varð hálft á þessu því við vöruðum hana ekkert við og hún náði til hennar einverju sinni og varð hún mjög blá og marin af sparki hennar.  Fullorðna fólkið varð þess allavega áskynja að kýrin var stórhættuleg börnunum og því var þessi góða mjólkurkýr seld Páli í Hrauni sem var einstaklega nærgætinn við skepnur  og honum gekk ákaflega vel með hana og gat aldrei þreyst á því að lofa það við okkur að hafa fengið þennan úrvalsgrip hjá föður mínum.

Mörg fást oft mál leyst án tafar,

mörg fá þau sinn grafarþey.

- Seint koma öll kurl til grafar,

og kann tíðum vera aldrei.

Einar Sigfússon

 


Til ástarfunda 13.4.14

Oft er títt það ástand relli

og ei sé skeytt að beita vali.

Til ástafunda í einum hvelli

æða hryssur fjöll og dali.


Um lífið 12.4.14

Lífið er baks með fálmi og fum

og framtíðin óvís hver verður.

Snýst þetta ekki á endanum um

úr hverju maður er gerður?


Snorri í Betel og skoðanafrelsið 11.4.14

Snorri í Betel birti á Fési

best væri af að homma

og öfuguggar allir væru

er aðhylltust samkynhneigð

og það væri synd og óguðlegt

og andstætt Biblíukenning.

Af því trylltust margir menn

og ráku hann úr sínu starfi.

Nú básúna sárir eineltismenn

óréttinn dómstólanna

að hér séu nú í landi enn

frjálsir menn skoðana sinna.

- Þetta eru asnar Guðjón,

sem ættu virkilega skilið

að fá að vera undir járnhæl

þar sem að það er ekki!

Ætli þeir myndu þá ekki

rífa aðeins minna kjaftinn?


Þegar allt þér þrýtur (Ort til skýringar um ljóðabók mína um samfélagið)

Mörg hafa soramennin sótt til mín vítur

fyrir siðlaust háttarlag, gör og aðrar vammir.

Faðir minn sagði: - Þegar allt þér þrýtur

þá er alltaf þrautaráðið blóðugustu skammir.


Sín hverra augna 9.4.14

Sín hverra augna eru bú,

ýmsir sjá allt í róða,

- heldur er fátíð saga sú,

sjá bara í fólki það góða.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

neisti

Höfundur

Einar Sigfússon
Einar Sigfússon
Ég Einar Sigfússon er Óðalsbóndi í Efri-Skálateigi 2, í Neskaupstað. Hættur hefðbundnum búskap fyrir löngu vegna heilsubrests og er öryrki. Ég er enn með nokkur hross á jörðinni og örlitla ræktun í félagi við annan uppgjafabónda sem er Ásvaldur Sigurðsson framkvæmdastjóri í Neskaupstað. Hann bjó fyrst á Hömrum við Akureyri og síðar á Geithellum í Álftafirði. Hann rekur nú verslun í Neskaupstað og er eigandi og hennar.
Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • 10959352 10152864324913964 3615740646773882780 n
  • 10959352 10152864324913964 3615740646773882780 n
  • Kjarnveig 5 vetra
  • Blíða 3ja vetra
  • Blíða veturgömul

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (19.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 2
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 2
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband